Ert þú að skoða frostlöginn á bílnum þínum reglulega? Það skiptir mjög miklu máli að fylgjast vel með frostleginum, sérstaklega þegar kuldinn fer að aukast. Frostlögur gegnir mjög mikilvægu hlutverki í bílnum, hann sér um að halda réttu hitastigi á vélinni, kæla hana en einnig sér hann um að flæða um mistöðina og halda hita innan í bílnum.

Frostlögurinn flæðir um vélina sem og miðstöðvarkerfið, hann inniheldur tæringarvarnarefni sem eru nauðsynleg fyrir þá vélarhluti sem hann snertir. Sé frostlögurinn orðinn gamall eða það er búið að setja vatn á bílinn (sem þynnir frostlöginn) í stað frostlögsblöndu þá fellur hann í þessum gildum og þá geta vélarpartar farið að tærast og skemmast. Frostlögur blandast yfirleitt 1:1 eða 50% frostlögur og 50% vatn, það gerir ekkert að setja sterkari blöndu á bílinn því það getur valdið tjóni á kælikerfinu.

Mældu frostþolið í frostleginum

Frostlögsmælir

Það er góð regla að fara með bílinn á haustin og láta mæla frostþolið á frostleginum. Í flestum tilfellum er þetta einföld aðgerð og hægt að fá gert á sumum bensínstöðvum (með þjónustu), smurstöðvum og verkstæðum. Það getur verið að það sé nóg að fylla á tankinn en í sumum tilfellum þarf að tappa honum alveg af og setja nýja blöndu.

Langtíma-frostlögur hefur líftíma upp á c.a. 5 ár, en eldri gerðir af frostlegi eru gefnar upp fyrir c.a. 3 ár.  Mæling á frostþoli frostlögs getur verið villandi og þó svo að frostlögurinn frostþols mælingu þá fellur tæringarvarnagildið í honum með jafnt og þétt með tímanum. Tæringarvörnin í frostleginum ver inanverðan vatnsgang vélarinnar, elementin og allt kælikerfið gegn ryði og útfellingum. Því borgar sig að skipta um frostlög reglulega, tæringarvarnargildið er ekki hægt að mæla eins og frostþolið.

Skoðið einnig gúmmíþéttihringi á töppunum því þau hjálpa til við að halda þrýstingi á kælikerfinu.

Farðu varlega við að athuga vökvann og varist það að opna áfyllingará meðan bíllinn er heitur, það getur valdið slysi því oft eru kælikerfin undir miklum þrýstingi þegar þau eru heit.

Má blanda saman mismunandi tegundum af frostlegi?

Mismunandi gerðum (litum) af frostlegi má ekki blanda saman þó er til svokallaður Global frostlögur sem má blandast við allar gerðir af frostlög. Þó má í einhverjum tilfellum blanda saman mismunandi lituðum frostlegi en það veltur á tegundum, best er að ráðfæra sig við sölumann til að nálgast réttar upplýsingar um blöndun o.þ.h.. Það sem gerist ef að ólíkum tegundum er blandað sama að þeir geta skilið sig, orðið gelmyndaðir og/eða kekkjaðir og stífla þá lagnir t.d. í miðstöðvarkerfinu sem veldur því að enginn hiti kemur úr því ásamt því að kælieiginleikar verða litlir og í einhverjum tilfellum engir og bifreiðin ofhitnar.

Athugið að þegar skipt er um frostlög þá má alls ekki losa gamla frostlöginn í niðurföll þar sem þeir innihalda hættuleg efni fyrir umhverfið, heldur ber að skila honum til endurvinnslustöðva.